Hristir sunnlenskar mjaðmir á laugardag

Margrét Erla Maack, danskennari, fjöllistadís og tengdadóttir Rangárþings ytra. Mynd/Vera Páls

Margrét Erla Maack, danskennari, fjöllistadís og tengdadóttir Rangárþings ytra, mætir á Hellu á laugardaginn með þrjá ferska danstíma til að liðka mjaðmir og geð. Sunnlenska heyrði í henni í vikunni.

„Maðurinn minn, Tómas Steindórsson, er frá Hellu, og hugmyndin kemur frá honum. Ég hlakka mikið til að hrista sunnlenskar mjaðmir,“ segir Margrét, sem verður með þrjá tíma í Íþróttamiðstöðinni á Hellu; magadans, Beyoncé og burlesque.

Dulúð, dýrðarljómi og stigvaxandi skvettugangur fram eftir degi
Hver er munurinn á þessum tímum? „Sko, allir stílarnir snúast um að liðka og styrkja mjaðmir. Ég safna mínu stressi í mjaðmirnar og ég veit að það gera margar aðrar konur. Ég byrjaði í magadansi á sínum tíma vegna bakvandamála og hann bjargaði mér algjörlega. Ekki bara hvað varðar verkina heldur var ég líka svo glöð að finna dans sem hentaði svona fjölbreyttum líkömum. Magadansinn er tæknilegur, dulúðugur og hentar þeim sem vilja liðka sig og styrkja í baki og maga á skemmtilegan hátt. Beyoncé er svita- og gellutími við frábæra tónlist poppdrottningarinnar og svo er burlesque-ið mitt uppáhald, kynþokkafullur kabarettdans liðinna tíma.“

Margrét er frumkvöðull burlesque-listarinnar hér á landi og kemur reglulega fram þegar það má og er fastaskemmtikraftur á hinum goðsagnakennda kabarettstað Slipper Room í New York. Á milli kabaretta kennir hún í Kramhúsinu og er yfirleitt uppselt á námskeiðin hennar þar.

Ef konur eiga í erfiðleikum með að velja sér tíma, með hverju mælirðu? „Ég myndi segja að tímarnir fari stigvaxandi hvað varðar skvettugang – svo því feimnari sem kona er, því fyrr um daginn. Það sem kom mér mest á óvart er að meirihlutinn er að taka fleiri en einn tíma og margar ætla í alla þrjá. Svo það er mikill metnaður!“

Hrifnari af þeim sem kunna að hreyfa á sér mjaðmirnar
Mega karlmenn koma í tímana? „Já, ef þeir eru að koma til að læra og skemmta sér. Persónulega er ég hrifnari af þeim mönnum sem kunna að hreyfa á sér mjaðmirnar en þeim sem gera það ekki. Blikkblikk. Annars er gaman að segja frá því að ég kenndi þýska handboltalandsliði karla Beyoncé-tíma 2016… þeir urðu Evrópumeistarar nokkrum vikum síðar.“

Margrét er farin að hlakka til laugardagsins. „Ég er búin að hlakka til að mega kenna á ný síðan í október. Ég verð eins og kýr að vori. Svo er skráningin mjög góð sem þýðir góð stemning. Það eru nokkur pláss laus í magadansinn en alveg að verða uppselt í Beyoncé og burlesque. Því miður er fjöldatakmark í tímana vegna ástandsins. Mér sýnist á öllu að ég þurfi að koma aftur í mars eða apríl.“

En við hverju býst Margrét af sunnlenskum mjöðmum? „Ég býst við litlum Suðurlandsskjálfta. Einfalt.“

Nánar má lesa um námskeiðin og skrá sig til leiks á heimasíðu Margrétar – og síðasti séns til að skrá sig er á hádegi á föstudag.

Ljósmynd/Margrét Erla Maack
Fyrri greinStór hluti nemenda í bráðabirgðahúsnæði
Næsta greinEmir Dokara í Selfoss