Hringvegurinn ekinn á tíu kílómetra hraða

„Við gefum okkur þrjár vikur til einn mánuð að fara hringinn í kringum landið, við förum reyndar ekki hratt yfir því dráttarvélin getur ekki farið hraðar en tíu kílómetra á klukkustund“, segir Helgi Guðmundsson úr Vogunum

Hann og eiginkona hans, Júlía Halldóra Gunnarsdóttir lögðu af stað í lok júní í hringferð um landið á fimmtíu ára gamalli dráttarvél, Farmall Cub, sem Helgi hefur gert upp. Þau eru með kúrekakerru aftan í Farmalnum, sem þau gista í.

„Auðvitað erum við snarklikkuð að gera þetta en það er allt í lagi, okkur hefur dreymt um að fara hringinn á þennan hátt og látum þann draum verða að veruleika. Við stefnum á að aka sex klukkutíma á dag og skiptumst á að vera við stýrið,“ bætir Helgi við.

Þau fá mikil viðbrögð á vegunum, fólk vinkar þeim og hvetur þau áfram um leið og það dáist að frumkvæði þeirra og að nenna að standa í þessu. „Já, já, fólk stoppar mikið og spjallar við okkur. Margir taka ljósmyndir og aðrir vilja forvitnast um dráttarvélina og enn aðrir vilja fá að kíkja inn í kúrekakerruna,“ segir Júlía.

Fyrri greinÚtgáfutónleikar í Hvolnum
Næsta greinSelurinn Dilla eltir starfsmennina á röndum