Hringlaga hús með fágaðri og látlausri ásýnd

Í dag voru kynntar niðurstöður í hönnunarsamkeppni vegna byggingar nýs hjúkrunarheimilis á Selfossi sem tekið verður í notkun árið 2020.

Við þetta tilefni var einnig undirritaður samningur um fjölgun hjúkrunarrýma á nýja hjúkrunarheimilinu. Áður var gert ráð fyrir fimmtíu nýjum rýmum en í nýja samningnum er gert ráð fyrir sextíu rýmum. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, skrifuðu undir samning um stækkunina.

Tekið í notkun í byrjun árs 2020
Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna eru tæplega 1,7 milljarðar króna. Ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra munu greiða 84% af kostnaðinum en Sveitarfélagið Árborg mun greiða 16% af áætluðum kostnaði.

Stefnt er að því að verklegar framkvæmdir verði boðnar út síðari hluta sumars 2018 og að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun í byrjun árs 2020.

Viðbyggingarmöguleikar vel leystir
Sautján tillögur bárust í hönnunarkeppnina og voru fimm þeirra verðlaunaðar sérstaklega. Fyrstu verðlauna tillöguna áttu Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps. Höfundar tillögunnar eru Guðmundur Gunnarsson, Gunnþóra Guðmundsdóttir, Michael Blikdal Erichsen, Mette Nymann, Morthen Nymann, Toke Skeldal og Kristian Gatte.

Tillagan gerir ráð fyrir hringlaga húsi á tveimur hæðum og mun byggingin rísa austan við sjúkrahúsið á Selfossi.

Bryndís Þorvaldsdóttir, formaður dómnefndar, greindi frá úrslitum keppninnar en í umsögn dómnefndar um 1. verðlaunatillöguna segir meðal annars að ásýnd hússins sé fáguð og látlaus. Herbergi íbúa eru trapisulaga og öll með aðgengi að einkasvölum. Starfsaðstaða er góð og sameiginlegt garðrými gefur fyrirheit um skjólgott og aðlaðandi umhverfi sem hentað getur til fjölbreyttrar útiveru. Þá eru viðbyggingarmöguleikar vel leystir.

Fyrstu verðlaunatillagan hlaut 5 milljónir króna í verðlaun, en tillögurnar í 2. og 3. sæti hlutu 3 og 2 milljónir króna í verðlaun. Þá fengu tvær tillögur 500 þúsund króna verðlaun þar sem þær þóttu sérstaklega athyglisverðar.

Tillögurnar til sýnis í Hamri
Þær sautján tillögur sem bárust og voru teknar til dóms verða til sýnis á nemendatorgi í verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands, Hamri, við Tryggvagötu 25, Selfossi á opnunartíma skólans 25. til 27. október og laugardaginn 28. október og sunnudaginn 29. október frá kl. 11-13.


Verðlaunahafarnir ásamt ráðherra og fulltrúum dómnefndarinnar.


Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, skrifuðu undir samning um stækkunina.


Byggingin mun rísa austan við sjúkrahúsið á Selfossi.


Tillagan gerir ráð fyrir hringlaga húsi á tveimur hæðum.

Fyrri greinLíkfundur við Jökulsá á Sólheimasandi
Næsta greinDagný skoraði mark Íslands