Hringbraut sektuð um milljón vegna þáttar um miðbæ Selfoss

Nýr miðbær á Selfossi. Mynd/Batteríið

Fjölmiðlanefnd hefur sektað Hringbraut-fjölmiðla um eina milljón króna vegna þáttarins Miðbær Selfoss í þáttaröðinni Atvinnulífið. Þátturinn var kostaður af Sigtúni þróunarfélagi, framkvæmdaaðila nýja miðbæjarins, og sýndur átta dögum fyrir íbúakosningu um nýja miðbæinn á Selfossi.

Nefndin telur að Hringbraut hafi brotið gegn lögum um fjölmiðla um bann við kostun fréttatengds efnis og að efnistök þáttarins hafi farið í bága við lög um fjölmiðla um bann við áhrifum kostenda á innihald og efnistök kostaðs efnis.

Nefndin tók málið til meðferðar í kjölfar fyrirspurnar frá íbúa á Selfossi.

Í þættinum Miðbær Selfoss voru til umfjöllunar tillögur bæjarstjórnar um breytt aðal- og deiliskipulag í miðbæ Selfoss og fyrirhuguð íbúakosning um þær, sem fram fór 18. ágúst 2018. Var það niðurstaða fjölmiðlanefndar að þátturinn teldist til fréttatengds efnis og að Hringbraut-fjölmiðlar hefðu með kostun hans brotið gegn banni við kostun frétta og fréttatengds efnis í sjónvarpi.

Í ákvörðun fjölmiðlanefndar segir m.a. að reglur um bann við kostun frétta og fréttatengds efnis gangi út á að vernda upplýsingarétt almennings, enda sé brýnt að almenningur geti mótað skoðanir sínar og dregið ályktanir út frá réttum og hlutlausum upplýsingum. Mikilvægt sé að umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda kosninga sé fagleg og vönduð, leitast sé við að varpa ljósi á ólíkar hliðar mála og forða því að notendur fjölmiðla rugli saman auglýsingum, kostuðu efni og hlutlausum upplýsingum.

Nefndin telur að stjórnandi þáttarins og allir viðmælendur hans hafi lýst jákvæðri afstöðu til fyrirhugaðra framkvæmda á vegum kostanda. Ekki liggi fyrir að gerð hafi verið tilraun til að afla andstæðra sjónarmiða frá þeim sem krafist höfðu íbúakosninga um framkvæmdirnar, heldur hafi forsvarsmenn kostanda verið látnir um að svara ætluðum gagnýnisröddum.

Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi einni milljón króna en við ákvörðun sektarinnar var meðal annars tekið mið af alvarleika brotsins og því að um ítrekað brot var að ræða hjá Hringbraut.

Fyrri greinÞorlákshafnarstrákarnir óhræddir við Kríuna
Næsta greinHvar er fjallið sem var á myndinni í gær?