Hrina innbrota stendur yfir

Lögreglan í Árnessýslu rannsakar nú tugi innbrota í sumarbústaði sem framin hafa verið á undanförnum dögum og vikum.

Ítrekað hefur verið brotist inn í sumarbústaði í Gríms­nesi, í Laugar­dal, í Hrunamanna­hreppi og við Hlíðarvatn í Selvogi og eru öll þau mál óupplýst að sögn lögreglu. Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar aðstoðar yfirlögreglu­þjóns á Selfossi reynist oft erfiðara að upplýsa um slík innbrot ef tilkynning um þau berst nokkru eftir að þau eiga sér stað.

Hann segir mögulegt að innbrotin í sumar­bústaði nú vera skipulögð, og búið sé að miða út þau hús sem svo er brotist inn í. Þorgrímur bendir á að í flestum tilvikum sveigi þjófarnir frá þeim húsum þar sem aðgengi er hindrað, til að mynda með hliðum. Auk þess sé mikilvægt að ganga vel frá húsunum og auðvitað heppilegast að koma upp einhverskonar þjófavarna­kerfi.

„Líkurnar á að við náum innbrotsþjófum aukast vissulega ef við fáum skilaboð um að innbrot sé í gangi,“ segir Þorgrímur. Hann segir þó að svo virðist sem innbrotsþjófar séu oft vel búnir verkfærum og séu því beinlínis að fara í ferðir og leita eftir verðmætum. Hann segir að dæmi séu um að þjófar séu beint skikkaðir til að skaffa verðmæti upp í skuldir, þá hugsanlega fíkniefna­skuldir. Það sé þó að líkindum ekki tilfellið í þeirri hrinu sem gengið hefur yfir undanfarnar vikur.

Að sögn Þorgríms hefur mest verið farið inn í bústaði í eigu félaga­samtaka. Aðspurður um ástæður þess segir hann líklegast að þjófarnir þekki þar til, hafi mögulega verið þar gest­komandi og farið síðar í innbrota­­leiðangur á svæðið. Þá séu þeir bústað­ir yfirleitt ekki í útleigu nema um helgar.

Þorgrímur bendir á mikilvægi þess að lögregla fái upp­lýsingar um grunsamlegar manna­ferðir í sumarbústaða­byggð­um, slíkt sé besta vörnin. Hann hvetur fólk til að hafa samband við lögreglu jafnvel af litlu tilefni.

Fyrri greinÁrborg fær 37 milljóna króna framlag
Næsta greinSveitarfélagið vill fresta friðlýsingu