Hreppurinn tekur við Dyrhólaey

Umhverfisráðherra hefur staðfest samning um að Mýrdalshreppur taki við daglegum rekstri Dyrhólaeyjar af ríkinu.

Enn er eftir að ná sátt um verndaráætlun fyrir svæðið, en uppbygging samkvæmt deiliskipulagi hefur strandað á deilum í tæpan áratug.

Mýrdalshreppur er nú formlega ábyrgur fyrir daglegri umsjá friðlandsins í Dyrhólaey. Samningurinn, sem umhverfisráðherra undirritaði á mánudag, mælir fyrir um að verndaráætlun fyrir svæðið verði tilbúin 1. maí á næsta ári. Skipuð verður ráðgjafarnefnd með fulltrúum hins opinbera, sveitarfélagsins og hagsmunaaðila, en nefndin á að koma sér saman um verndaráætlunina.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á verndun fuglalífs í eynni, en lokanir á varptíma í maí og júní hafa sætt harkalegu andófi hagsmunaaðila eystra.

Deiliskipulag fyrir Dyrhólaey hefur legið fyrir frá 2002, en því hefur ekki verið fylgt eftir. Það gerir til dæmis ráð fyrir gestastofu, göngustígum og ýmsu fleiru.
Lítið hefur gerst í þessum málum vegna deilna síðustu ára og vegna þess hve ábyrgð og umsýsla á svæðinu hefur verið óljós og deilst á margra hendur. Ríkið veitir í ár fjórar milljónir króna til uppbyggingar við Dyrhólaey.

RÚV greindi frá þessu