Hreppurinn selur ofan af sér skrifstofuna

Skaftárhreppur hefur fengið fyrirspurn um kaup á fasteigninni að Klausturvegi 15 þar sem skrifstofur bæjarins eru til húsa. Húsið er samtals um 140 fermetrar að stærð og eru bæjarskrifstofurnar í um 80 fermetrum af því, hitt er leigt út.

Á fundi sveitarstjórnar á mánudaginn var samþykkt að auglýsa eignina til sölu. Var bókað að í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og í von um að skrifstofa sveitarfélagsins geti innan fárra ára flutt í Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri, sé samþykkt að auglýsa húseignina að Klausturvegi 15 til sölu.

Sveitarstjóra hefur verið falið að fá fasteignasölu til að annast auglýsingu og söluferli ef til þess kæmi. Eignin skal auglýst til sölu fram til 1. nóvember 2012.

En er ekki óþægilegt að selja ofan af sér? „Við teljum að þetta gangi allt vel, við færum okkur yfir í félagsheimilið Kirkjuhvol, en skrifstofa sveitarfélagsins var áður þar. Þar verður aðeins þrengra á okkur en það gerir ekkert til. Þetta er vissulega liður í endurskipulagningunni hjá okkur. Við lítum svo á að þetta verði millibilsástand þar til við getum tekið Þekkingarsetur í notkun,” sagði Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri í samtali við Sunnlenska.

Fyrri greinSamningur um Sandvíkursetur undirritaður
Næsta greinVarð fyrir vatnstanki