Hreppurinn hamrar á Hamarsvegi

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur enn og aftur ítrekað þá brýnu nauðsyn sem er á því að setja bundið slitlag á malarvegi í sveitarfélaginu.

Fulltrúar Flóahrepps funduðu með þingmönnum Suðurkjördæmis í lok október og kynntu þar meðal annars áherslur á nauðsynlegar úrbætur í sveitarfélaginu. Þar óskuðu fulltrúar hreppsins eftir því að nokkrir malarvegir í sveitarfélaginu komist sem fyrst inn á samgönguáætlun.

Eins og áður er þarna átt við Hamarsveg, Önundarholtsveg, Urriðafossveg, Ölvisholtsveg og Villingaholtsveg. Allt eru þetta vegir sem eru mikilvægar samgönguæðar í sveitarfélaginu en eru nánast ófærir sökum lélegs viðhalds mörg undanfarin ár.

Auk þess að ræða vegamálin bentu fulltrúar Flóahrepps á nauðsyn þess að húshitunarkostnaður sé jafnaður en aðeins hluti af íbúum Flóahrepps býr við þau gæði að hafa hitaveitu þar sem um 2/3 hluti íbúa kyndir hús sín með rafmagni. Þá voru fjarskiptamál í hreppnum rædd en fulltrúar Flóahrepps segja nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin í uppsveitum, Ásahreppi og Flóahreppi að fá fjármagn frá ríkinu til að standa undir framkvæmdum við ljósleiðaratengingu.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Áveitunnar.

Fyrri greinUppsagnirnar geta skapað hættuástand
Næsta greinVilja uppbyggingu skólastarfs í Villingaholti