Hreppsráð færir Laugalandsskóla hamingjuóskir

Kolbrún Sigþórsdóttir, starfandi skólastjóri Laugalandsskóla, mætti á fund hreppsráðs Rangárþings ytra í síðustu viku. Skólinn hefur náð frábærum árangri í Stóru upplestrarkeppninni.

Tilefnið var að Laugalandsskóli hefur tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni undanfarin ellefu ár og unnið keppnina allar götur síðan ef undan er skilið fyrsta árið. Auk þess hafa nemendur við skólann einnig skipað sér í annað og/eða þriðja sætið ásamt fyrsta sætinu í keppninni miðað við sitt svæði.

„Þessi verðlaun eru ánægjuleg viðurkenning á því starfi sem fram fer í skólanum, dugnaði og metnaði stjórnenda og kennara við skólann og síðast en ekki síst frábærri frammistöðu þeirra nemenda sem tekið hafa þátt í Stóru upplestrarkeppninni fyrir hönd skólans“, sagði Kolbrún.

Hreppsráð færði Laugalandsskóla einnig hamingjuóskir frá sveitarstjórn fyrir að hafa fengið Menntaverðlaunin á dögunum og fyrir gott og öflugt skólastarf.

Á Facebooksíðu Rangárþings ytra segir að í ljósi jafnréttisumræðunnar sé skemmtilegt að geta þess að hreppsráðið, sveitarstjórinn og skólastjórinn eru allt konur.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Níu kærur vegna þjófnaðar og eignaspjalla
Næsta greinLenti undir grjóti við Gígjökul