Hreppsnefnd íhugar sýnatöku

Hreppsnefnd Grímsnes- og Grafn­ings­hrepps íhugar að láta fram­kvæma sýnatöku á nokkrum þeim stöðum þar sem bílar frá Holræsa- og stífluþjónustunni hafa vanið komur sínar.

,,Það hefur engin ákvörðun verið tekin um hvernig við berum okkur að í þessu máli en vissulega skoðum við þann möguleika að láta fram­kvæma sýnatöku. Við fylgjumst með því hvernig málinu vindur fram,“ segir Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri.

Ingibjörg segir ólíklegt að samningur við fyrirtækið yrði endurnýjaður en hann rennur út um næstu áramót.

Eins og fram hefur komið í fréttum losuðu starfsmenn fyrirtækisins skólpvatn út á vatnsverndarsvæði við Þingvallavatn.