Hrekkjavökuhald frestast vegna veðurs

Frá hrekkjavökunni á Selfossi í fyrra. Ljósmynd/Sverrir Örn Hlöðversson

Grikk eða gott sem átti að vera á morgun, föstudag, á Selfossi hefur verið frestað til sunnudags vegna veðurs.

Undanfarin ár hafa börn gengið í hús á Selfossi og sníkt nammi eða gert grikk eða gott. Hrekkjavakan hefur notið aukinna vinsælda á Selfossi sem og annars staðar og æ fleiri hafa skráð húsið sitt á lista yfir þau hús þar sem börn eru velkomin.

Á morgun er aftur á móti gul veðurviðvörun á Suðurlandi og hætta á mikilli hálku og því ekki æskilegt að krakkarnir séu á ferli. Það er ekki gott ef einhver kemur heim með alvöru blóð úr grikk eða gott.

Ný tímasetning er því sunnudagurinn 2. nóvember klukkan 18:00-20:00. Hægt er að sjá lista yfir þau hús sem bjóða börn velkomin í Facebook-grúppunni Hrekkjavaka á Selfossi. Þar er einnig hægt að bæta sínu húsi við ef vilji er fyrir hendi

Þess má gera að hrekkjavökuhátíðinni í Skaftholtsréttum var einnig frestað fram á sunnudag. Gera má ráð fyrir að fleiri sveitarfélög á Suðurlandi fresti sínum hátíðarhöldum tengdum hrekkjavökunni.

UPPFÆRT kl. 12:23: Hrekkjavökuhaldi hefur einning verið frestað á Hellu fram á sunnudag. Þar verður gengið í hús frá klukkan 17:00-19:00.

Fréttin verður uppfærð ef þörf þykir.

Fyrri greinHernaðurinn gegn fuglunum
Næsta greinÞórsarar hársbreidd frá fyrsta sigri vetrarins