Hreint styrkir Votlendissjóð á afmælisdaginn

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, og Eyþór Eðvarðsson, formaður stjórnar Votlendissjóðsins, handsöluðu samstarfið við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Hreint þar sem fagnað var í leiðinni 35 ára afmæli félagsins. Ljósmynd/Aðsend

Hreint afhenti í dag, á 35 ára afmælisdegi félagsins, styrk til Votlendissjóðsins sem jafngildir jarðefnaeldsneytisnotkun starfsmanna Hreint með bílum eða flugi í tvö ár.

Sjóðurinn hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda úr náttúru Íslands með endurheimt votlendis.

„Við viljum vera í sátt við bæði samfélag og umhverfi í okkar starfsemi. Með styrknum er hægt að stöðva árlega losun á 100 tonnum af gróðurhúsalofttegundum sem jafngildir 2 ára kolefnisjöfnun félagisns. Fyrir átta árum fengum við Svaninn, norræna umhverfismerkið, og kolefnisjöfnunin nú með stuðningi við sjóðinn góða er á margan hátt rökrétt framhald af því,” segir Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, sem er ein elsta og stærsta ræstingarþjónusta landsins. 200 starfsmenn frá á þriðja tug þjóðlanda starfa hjá Hreint sem er með starfsstöðvar á fimm stöðum á landinu.

Stærsta áskorun samtímans að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda
Eyþór Eðvarðsson, formaður stjórnar Votlendissjóðsins, segir Hreint sýna sjóðnum ánægjulegan og mikilvægan stuðning.

„Stærsta áskorun samtímans er að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur hlýnun jarðarinnar.  Til að það sé hægt verðum við öll að vinna saman að Parísarsamkomulaginu sem er að ná að halda hlýnuninni innan við 2°C og helst 1,5°. Á Íslandi er talið að 2/3 af allri losun gróðurhúsalofttegunda komi frá framræstu eða röskuðu votlendi. Votlendissjóður hefur það hlutverk að vinna að endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Með endurheimt votlendis er leitast við að stífla eða fylla upp skurði og þannig færa stöðu grunnvatns á framræsta svæðinu sem næst því sem það var fyrir framkvæmd. Um leið og vatnið kemst á aftur á mýrina fer súrefnið úr jarðveginum og rotnunin stöðvast og þ.a.l. losun á koltvísýringi,“ segir Eyþór.

Fyrri greinFerðaþjónustan á Hveravöllum til sölu
Næsta greinTveir á sjúkrahús eftir harðan árekstur