Hreint hjarta besta myndin

Heimildarmyndin Hreint hjarta var valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg sem fram fór um helgina á Patreksfirði. Leikstjóri myndarinnar er Grímur Hákonarson, frá Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi.

Myndin Hreint hjarta fylgir eftir séra Kristni Ágústi Friðfinnssyni í starfi en Kristinn hefur verið prestur á Selfossi og nágrenni í 20 ár.

Hann er litríkur karakter sem er ekkert óviðkomandi þegar kemur að prestsþjónustunni. Í myndinni fá áhorfendur að kynnast manninum á bakvið hempuna og þeim fjölmörgu störfum sem prestar vinna sem ekki eru sýnileg. Kristinn fæst mikið við sálgæslu í starfi sínu, aðstoðar fólk við að komast yfir erfiðleika sína en þarf líka sjálfur að glíma við sína eigin drauga.

Grímur segir einn helsta styrk myndarinnar vera hversu nærgöngul hún er. Og hvað séra Kristinn er opinn og einlægur fyrir framan tökuvélina.„Myndin fer mjög nálægt honum og kafar mjög djúpt í hans líf,“ segir Grímur í samtali við RÚV.

Stiklu fyrir myndina má sjá hér að neðan.