Hreinsunarvika í Bláskógabyggð

Nú stendur yfir hreinsunarvika yfir í Bláskógabyggð þar sem íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka höndum saman um að fegra sveitina sína.

Vikuna 30.maí – 5.júní eru íbúar sveitafélagsins hvattir til þess að „gera hreint fyrir sínum dyrum“ þ.e. að taka til í kringum hús sín og í görðum. Einnig að fara yfir girðingar og skurði í næsta nágrenni.

Mikið hreinsunarstarf hefur átt sér stað í sveitarfélaginu að undanförnu en þann 17. maí sl. var haldinn Hreinsunardagurinn mikli á Laugarvatni þar sem allir tóku virkan þátt, hreinsuðu í kringum hús sín og strandlengju Laugarvatns og héldu svo saman grillveislu í lok dags. Íbúar í Laugarási hafa líka tekið til hendinni sem og félagar í Lionsklúbbnum Geysi sem fóru eins og undanfarin ár meðfram vegum í sveitafélaginu og tíndu rusl.

Hápunkti hreinsunarinnar verður náð nú um helgina 4.-5. júní en þá verða móttökustöðvar fyrir sorp opnar lengur eða frá kl. 14:00 – 18:00 báða dagana og verður hægt að henda rusli þar án endurgjalds. Fólk er beðið um að flokka ruslið eins og hægt er og henda í viðeigandi gáma. Sömu daga milli kl. 16:00 – 18:00 verður Björgunarsveit Bláskógabyggðar á ferðinni í Reykholti og tekur það rusl sem sett hefur verið út fyrir lóðarmörk.

Laugardaginn 4. júní kl. 18:00 verður grillveisla við Aratungu þar sem boðið verður upp á pylsur og gos.

Umhverfisnefnd Bláskógabyggðar hvetur íbúa til þess að nota tækifærið og losa sig við ruslið.

Fyrri greinTorfærubílar fyrir túrista
Næsta greinStyrktarreikningur fyrir fjölskyldu Vilhelms Þórs