Hreinsunarátak í Vík

Á fundi vettvangsstjórnar í Vík í gær var ákveðið að freista þess að fara í hreinsunarátak um helgina. Markmiðið er að hreinsa sem flest íbúðarhús í sveitarfélaginu.

Guðmundur Ingi Ingason, yfirmaður þjónustumiðstöðvar Almannavarna í Vík, segir ástandið víða orðið nokkuð þrúgandi, sérstaklega meðal bænda og ferðaþjónustuaðila. „Nú þegar höfum við notið mikillar aðstoðar sjálfboðaliða við sauðburð og einnig við smíðavinnu. Nú biðlum við til þeirra sem væru til í að taka þátt í þessu um helgina, þ.e. á laugardag og sunnudag,“ segir Guðmundur Ingi.

Stefnt er að því byrja starfið á laugardagsmorgun á milli kl. 9 og 10 um morguninn. Þeir sem hafa hug á að aðstoða eru beðnir um að hringja í 112 og fá samband við þjónustumiðstöðina í Vík, þar sem þeir geta skráð sig.