Hreinn ráðinn sviðsstjóri hjá Skógræktinni

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, hefur verið ráðinn sviðsstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar. Fimm sóttu um starfið.

Samhæfingarsvið er nýtt svið innan Skógræktarinnar sem fæst við stjórnsýslu, skipulagsmál, kynningarmál og fræðslu á sviði skógræktar. Forstöðumaður samhæfingarsviðs hefur meðal annars forystu um gerð landsáætlunar og landshlutaáætlana í skógrækt, fræðslumál og upplýsingamiðlun, þ.m.t. vefsíðu og útgáfu, samhæfingu á úttektum og árangursmati ásamt því að bera ábyrgð á gæðastarfi Skógræktarinnar.

Hreinn Óskarsson er doktor í skógfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur verið skógarvörður á Suðurlandi frá árinu 2002 að einu ári undanskildu og framkvæmdastjóri Hekluskóga frá 2008.

Á vef Skógræktarinnar kemur fram að á næstu dögum verði auglýst eftir nýjum skógarverði á Suðurlandi.