Hreinn doktor í skógfræði

Hreinn Óskarsson, skógfræðingur, skógarvörður á Suðurlandi og verkefnisstjóri Hekluskóga, varði 6. júní sl. doktorsritgerð í skógfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Ritgerðin nefnist „Tree Species Response to Fertilization during afforestation in Iceland“ (Áhrif áburðargjafar við gróðursetningu á skógarplöntur).

Ritgerðin skiptist í samantekt og fimm greinar sem flestar eru þegar birtar í ritrýndum tímaritum. Ritgerðin byggir á rannsóknum Hreins á notkun smáskammta af áburði í skógrækt á Íslandi, en það er almennt ekki gert í nágrannalöndunum. Áhrif áburðargjafa á vöxt og lifun trjáplantna, næringarástand þeirra og frostþol var skoðað, auk þess að áhrif áburðar á svepprótarmyndun smáplantna var skoðuð. Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru að styrkur næringarefna í laufi og nálum, sér í lagi niturs, hækkaði á fyrsta sumri eftir áburðargjöf. Niturstyrkur í laufi plantna sem engan áburð fengu lækkaði hins vegar niður fyrir skortsmörk strax á fyrsta sumri. Eftir tvö sumur hafði niturstyrkur í laufi bæði áborinna og óáborinna plantna lækkað niður fyrir skortsmörk. Áburðargjöf við gróðursetningu með nitri og fosfór í blöndu hafði almennt jákvæð áhrif á lifun og vöxt trjáplantna, samanborið við viðmiðunarmeðferð eða þegar nitur og fosfór var borinn á einn og sér. Niðurstöður sýna hins vegar að þegar saman fara stórir skammtar niturs og fosfórs og þurrkur í kjölfar gróðursetningar geta afföll aukist strax á fyrstu vikum eftir gróðursetningu. Helsta skýring þess að lifun áborinna planta var hærri er sá aukni vöxtur sem áburðargjöfin skilaði. Stórar plöntur lifðu frekar af frostlyftingu og nag skordýra s.s. ranabjöllu sem eru þættir sem geta valdið miklum afföllum í nýskógrækt á Íslandi. Stórir skammtar af nitri og fosfór við gróðursetningu minnkuðu tíðni sveppróta á birkiplöntum eftir fyrsta vaxtarsumarið, samanborið við viðmiðunarplöntur eða plöntur sem fengu litla nitur og fosfórsskammta. Þremur árum eftir gróðursetningu var þessi munur þó horfinn og tíðni útrænna sveppróta var svipuð milli viðmiðunar og stærstu áburðarskammta. Áburðargjöf við gróðursetningu í júlíbyrjun hafði ekki áhrif á haustfrostþol greni- og birkiplantna. Ábornar greniplöntur skemmdust þó heldur meira í vorfrostprófi samanborið við óábornar plöntur og var líkleg skýring sú að ábornu greniplönturnar hófu brumvöxt fyrr en hinar óábornu og misstu þar með frostþol. Engin áhrif áburðar á vorfrostþol birkis fundust í rannsókninni.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að hóflega áburðargjöf (10-20 g/plöntu) af nitur- og fosfóráburði hafði jákvæð áhrif á vöxt og lifun trjáplantna á fyrstu árum eftir gróðursetningu. Þó áhrif áburðargjafa séu skammvinn á næringarástand og vöxt duga þau til að hjálpa plöntum yfir fyrsta árið sem er erfiðasti hjallinn í lífi smárra trjáplantna. Takist það er miklum áfanga náð við nýskógrækt á Íslandi. Rannsóknir Hreins hafa haft mikil áhrif á ræktunartækni skógræktar hérlendis og þær hafa tvímælalaust stuðlað að bættum árangri í greininni.

Leiðbeinendur Hreins í doktorsnáminu voru þeir Jørgen Bo Larsen, prófessor í skógfræði og Karsten Raulund-Rasmussen, prófessor í skógvistfræði, báðir starfandi við Skov & Landskab, LIFE, við Kaupmannahafnarháskóla. Andmælendur við doktorsvörnina voru þau Dr. Morten Ingerslev sérfræðingur við Kaupmannahafnarháskóla, Heljä-Sisko Marketta Helmisaari prófessor við Háskólann í Helsinki og Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hreinn er fæddur á Selfossi 20. október 1971, sonur Aldísar Bjarnardóttur, kennara (1929-1991) og Óskars Þórs Sigurðssonar, fv. skólastjóra. Hann er kvæntur Guðbjörgu Arnardóttur presti, eiga þau þrjú börn og búa í Odda á Rangárvöllum. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Suðurlands árið 1990, B.Sc.-prófi í skógfræði við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1995 og MSc prófi í skógfræði við sama skóla árið 1997. Hreinn hefur starfað hjá Skógrækt ríkisins frá 1997, fyrst við rannsóknir á Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, frá 2002-2008 og frá 2009 til dagsins í dag sem skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi og samhliða skógarverðarstarfinu sem verkefnisstjóri Hekluskóga frá árinu 2008.

Frá þessu er greint á vef Skógræktarinnar.

Fyrri greinFerðamenn strandaglópar í Þorlákshöfn
Næsta greinÖruggur sigur á Fram