Hreindýraskinni og hjólbörum stolið

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu í liðinni viku um innbrot í sumarbústað í landi Búrfells í Grímsnesi. Ýmsu var stolið úr bústaðnum.

Þjófurinn notaði haka til að spenna upp útihurð á bústaðnum og lét síðan greipar sópa.

Meðal þess sem var stolið var sjónvarp, útvarp, flakkari, myndbandstæki, kaffivél, búsáhöld, hreindýraskinn, fatnaður og hjólbörur auk ýmissa annarra smærri muna.

Innbrotið hefur átt sér stað á tímabilinu 2. maí til 16. maí síðastliðinn. Þeir sem kunna að búa yfir vitneskju um málið eru beðnir um að snúa sér til Selfosslögreglunnar í síma 480-1010.