Hreiðrum rústað af manna völdum

Á síðustu þremur sólarhringum hafa lokunarhlið og upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar fimm sinnum verið rofin og fjarlægð, nú síðast eftir hádegi í gær.

Þorsteinn Gunnarsson, ábúandi á Vatnsskarðshólum, segir að skömmu áður, þegar ábúendur vitjuðu æðarvarpsins í eynni, hafi blasað við þeim hrikaleg sjón, þar sem fjölda hreiðra hafði verið rústað, egg brotin, dúnn tættur og hreiður afrækt. Augljóst sé af ummerkjum að skemmdirnar séu af manna völdum.

„Sveitarstjóri Mýrdalshrepps – sem Umhverfisstofnun áformar að afhenda umsjón friðlandsins – hefur, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, í öllum megin atriðum lýst sig sammála því ofbeldisliði sem farið hefur um friðlandið með þjófnaði og skemmdarverkum að undanförnu. Um leið og sveitarstjórinn lýsir í fjölmiðlum fullum stuðningi við markmið innbrotsmanna hafa lögreglan og Umhverfisstofnun horft aðgerðalaus á meðan afbrotin voru framin,“ segir Þorsteinn í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í gærkvöldi.

„Ofurálag á lífríki Dyrhólaeyjar af völdum gríðarlegrar umferðar fólks og ökutækja og síendurtekin opnun eynnar á miðjum varptíma hafa nú valdið því að Dyrhólaey er á válista Umhverfisstofnunar yfir eitt verst farna friðlýsta svæði landsins. Staðir á válista með svo laskað lífríki þurfa vernd en ekki aukið álag, eigi þeir til framtíðar að verða einhvers virði fyrir ferðaþjónustuna,“ bætir Þorsteinn við.

Í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli fyrir liðna viku kemur fram að aðilar úr sveitarfélaginu hafi verið staðnir að því í vikunni að fjarlægja lokanir á veginum út í Dyrhólaey. Kæra vegna þjófnaðar á merkingunum og lokununum hefur verið lögð fram til lögreglu en samkvæmt upplýsingum frá henni stendur til að opna veginn að hluta nk. þriðjudag kl. 8 að morgni. Lögreglan vonast til að hliðum, merkingum og öðrum lokunum verði skilað nú eftir helgina.

Fyrri greinTveir Sunnlendingar á Special Olympics
Næsta greinNíu leikmenn skrifuðu undir