Hrefna búin að verpa

Eggin voru orðin fjögur síðdegis í dag. Mynd: Vefmyndavél BYKO

Hrafnarnir sem verpt hafa utan á verslun Byko á Selfossi undanfarin ár eru nú komnir með fjögur egg í laupinn sinn. Hrafnar verpa venjulega 4-6 eggjum og liggja á í rúmlega 20 daga, þannig að búast má við því að eggin klekjist út í kringum 25. apríl.

Þetta er í ellefta sinn sem hrafnarnir verpa í Byko, þó ekki sé vitað hvort alltaf sé um sama parið að ræða. Fyrsta varpið var vorið 2012, og frá árinu 2014 hafa hrafnarnir verpt árlega í laupinn.

Það er alkunna að hrafninn kann vel við sig í nágrenni mannsins og hann getur verpt á ótrúlegustu stöðum. Varpið í Byko hefur alltaf gengið vel en árið 2020 mistókst Hrafni og Hrefnu, eins og Bykoparið hefur verið nefnt, að koma ungunum á legg en þeir drápust einn af öðrum, fljótlega eftir að þeir klöktust úr eggjunum.

Eins og venjulega er Byko með beina útsendingu frá laupnum og er hægt að skoða hana hérna.

Fyrri greinAnna Metta sigraði í upplestrarkeppninni í Árborg
Næsta greinSandvíkurtjaldurinn er lentur