Hraunstraumurinn 800°C

Hitinn í hraunstraumnum á Fimmvörðuhálsi fer yfir 800°C og hitinn í gosstróknum yfir 640°C. Þetta leiða rannsóknir vísindamanna frá Íslenskum orkurannsóknum í ljós.

Vísindamennirnir fóru að gosstöðvunum á föstudag til mæla hita í gosstrókunum með hitainnrauðum myndavélum.

Af Morinsheiði á Goðalandi var tekin mynd af hraunfossinum sem fellur ofan í Hrunagil. Einnig var tekin mynd í sprungustefnu gossins sem sýnir hraunstrauminn í átt að Hvannárgili.

Út frá myndunum er hægt að greina kólnun hraunsins, sjá bruna gastegunda í gosstrók og fylgjast með virkni gígsins. Af myndunum að dæma fer hitinn í hraunstraumnum yfir 800°C og hitinn í stróknum yfir 640°C.