Hraunkot situr sem fastast á toppnum

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir septembermánuð hafa nú verið birtar. Hæsta meðalnyt var í Hraunkoti í Skaftárhreppi.

Niðurstöðurnar eru þær helstar að 22.308,2 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.346 kg síðustu 12 mánuðina. Þetta er 12 kg meiri meðalnyt en að loknu ágústuppgjöri. Hér á Suðurlandi hafa afurðir aukist heldur meira eða um 23 kg/árskú og standa nú í 5.458 kg/árskú.

Hæsta meðalnyt var í Hraunkoti í Skaftárhreppi 8.165 kg, næsthæstu meðalafurðir voru í Reykjahlíð á Skeiðum, 7.973 kg og þriðja búið í röðinni er á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð en þar voru meðalafurðirnar 7.960 kg. Þetta eru sömu búin og sátu efst í síðasta mánuði, röðin er þó aðeins önnur, búin í Reykjahlíð og á Kirkjulæk hafa skipt um sæti.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuðina var sú sama og í síðasta mánuði, Systa 361 á Syðri-Bægisá í Öxnadal, dóttir Teins 97001, en hún mjólkaði 11.899 kg síðustu 12 mánuðina, önnur í röðinni var Baula 1084 í Hrepphólum í Hrunamannahreppi, dóttir Fonts 98027, nyt hennar var 11.825 kg og hin þriðja var Fríða 117 í Hraunkoti í Skaftárhreppi, dóttir Stöðuls 05001, en hún mjólkaði 11.751 kg á tímabilinu.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar á vef BÍ