Hraungerðishreppur sigraði Selfosskaupstað í útiskák

Mikill skákáhugi er á Selfossi og hefur ekki síst eflst eftir tilkomu Fischersetursins. sunnlenska.is/Björn Ingi Bjarnason

Í gær, föstudaginn 25. september, var útitafl fyrir framan Fischer-setrið í Gamla bankanum á Selfossi vígt. Tefldar voru tvær vígsluskákir.

Guðni Ágústsson og Kjartan Björnsson fluttu stuttar tölur við Fischer-setrið af þessu tilefni. Síðan voru tefldar tvær vígsluskákir á útitaflinu og var um „svæðiskeppni“ að ræða því þar áttust við Hraungerðishreppur og Selfosskaupstaður.

Fyrir Hraungerðishrepp kepptu Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum, fyrrverandi ráðherra, og Gunnar Finnlaugsson einn af drifkröftum Fischer-seturs. Fyrir Selfosskaupstað kepptu Kjartan Björnsson á Selfossi, formaður bæjarráðs Árborgar og Vilhjálmur Þór Pálsson. Dómari var Jónas Ingvi Ásgrímsson.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, lék fyrsta leikinn fyrir Hraungerðishrepp.

Að loknum vígsluskákunum, sem Hraungerðishreppur vann með 1,5 vinningi gegn 0,5 vinningi Selfoss, var boðið í veglegt skák-kaffi og kræsingar í Fischer-setrinu.

Myndir frá viðburðinum má sjá á Menningar-Stað.

Fyrri greinÖlfus lagði Hveragerði í Útsvarinu
Næsta greinPerla markahæst í stórsigri Selfoss