Hrafnhildur Ýr dúxaði í FSu

Dúxinn Hrafnhildur Ýr ásamt Sigursveini aðstoðarskólameistara og Soffíu skólameistara. Ljósmynd/Jón Özur Snorrason

Vestmannaeyingurinn Hrafnhildur Ýr Steinsdóttir er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á nýliðinni vorönn. Fjölmennasta brautskráning í sögu skólans fór fram í gær og vegna umfangsins var athöfnin flutt í íþróttahúsið Iðu.

Að þessu sinni voru brautskráðir 155 nemendur af 13 námsbrautum. Alls útskrifuðust 103 stúdentar af bóknámsbrautum, 43 af öðrum brautum og 9 af verknámsbrautum með stúdentsprófi.

Af því tilefni sagði Soffía Sveinsdóttir, skólameistari, í ávarpi sínu að „prófskírteinin væru í ýmsum útfærslum og með margvíslegu innihaldi, sem endurspeglar fjölbreytt námsframboð sem er flaggskip skólans.”

Bókaverðlaun voru afhent fyrir einstakar námsgreinar og dreifðust á marga nemendur en dúx skólans var Hrafnhildur Ýr með heildareinkunnina 9,85. Hrafnhildur Ýr og Jasson Sanchez hlutu námsstyrk frá Hollvarðasamtökum FSu, sem Sigþrúður Harðardóttir, stjórnarkona í samtökunum, afhenti.

Sem fyrr segir var hópur brautskráðra nemenda stór og umfang athafnarinnar veglegt. Kór FSu steig á stokk og flutti fjögur lög, Sigursveinn Sigurðsson aðstoðarskólameistari flutti annarannál og Soffía skólameistari og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, fulltrúi nýstúdenta, fluttu ávörp áður en hópurinn hélt út í sumarið.

Fyrri greinOpnunarhátíð á laugardaginn
Næsta greinBanaslys í Hrunamannahreppi