Í dag verða tvær hraðamyndavélar teknar í notkun á Þingvallavegi, austan þjónustumiðstöðvarinnar.
Um er að ræða stafræna myndatöku, þar sem upplýsingar um hraðabrot eru sendar samstundis til lögreglu. Ekki er tekin mynd nema um brot sé að ræða. Skilti sem gefa eftirlitið til kynna hafa verið sett upp á Þingvallavegi.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að sjálfvirkt hraðaeftirlit sé ein af megináherslum í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda og er tilgangurinn sá að draga úr ökuhraða á þjóðvegum og auka þar með umferðaröryggi. Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.

