Hraðakstursbrotum fjölgar samhliða fjölgun erlendra ferðamanna

Lögreglan á Mýrdalssandi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Hraðakstursbrotum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi fjölgar þessa dagana og segir lögreglan að fjölgun erlendra ferðamanna í umferðinni sé stór hluti af aukningunni.

Lögreglan kærði 40 ökumenn fyrir hraðakstur í síðustu viku og af þeim óku tíu hraðar en 130 km/klst hraða. Einn þeirra mældist á 169 km/klst hraða á Suðurlandsvegi til móts við Bolöldu í Ölfusi þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Hann situr uppi með þriggja mánaða sviptingu og sekt upp á 250 þúsund krónur.

Í dagbók sinni bendir lögreglan á að bifreið á 130 km/klst hraða fari rúmlega 36 metra á sekúndu og  bifreið á 169 km/klst hraða fari tæplega 47 metra á sekúndu. Ljóst er að ekki má margt útaf bregða til að slíkur akstur endi ekki með ósköpum, segir lögreglan.

Lögreglan fagnar auknu streymi erlendra ferðamanna en minnir fólk á að fara gætilega og vera undir það búið að einhverjum ferðamanninum, sem sér eitthvað nýtt, detti í hug að bregðast öðruvísi við en við myndum gera og jafnvel stöðva utan í blindhæð til að taka myndir eða skoða í kringum sig.

Í dagbókinni kemur einnig fram að fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar undir stýri á Suðurlandi í liðinni viku.

Fyrri greinMalbikun frestað til morguns
Næsta greinFíkniefnaakstur í Flóanum