Hraðakstursbrot sjaldan færri

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði fjórtán ökumenn fyrir of hraðan akstur í liðinni viku og er langt síðan svo lág tala hefur sést við embættið á einni viku.

Skýringin er að sjálfsögðu sú að mun færri ökutæki eru á ferðinni þessa dagana en Vegagerðin hefur greint frá miklum samdrætti í umferð um sunnlenska þjóðvegi.

Radarvari og nýlegt próf gerðu ekkert gagn
Einn þeirra sem var stöðvaður í síðustu viku var á 140 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Kotströnd þar sem leyfður ökuhraði er 90 km/klst. Ökumaður þeirrar bifreiðar var með nýlegt próf og radarvara en hvorugt virðist hafa gert honum gagn þetta sinnið.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að tveir ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og tveir eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis.