Hraður vöxtur aspa á Tumastöðum

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að grisjun á starfsstöð Skógræktar ríkisins á Tumastöðum í Fljótshlíð og hafa þeir Hrafn Óskarsson og Guðmundur Ragnarsson unnið að því verki.

Einn af reitunum sem þeir grisjuðu er klónasafn af alaskaösp staðsett í Kollabæjarlandi og var það gróðursett árið 1990. Ýmsir klónar af ösp voru gróðursettir sem 1-2 ára pottaplöntur. Voru settar um 2.100 plöntur á hektara og lifði mest allt.

Áður en grisjun fór fram var hæð og þvermál trjánna í klónasafninu mælt og rúmmálsvöxtur reiknaður. Í stuttu máli var meðalvöxtur allra klóna 12,7 m3/ha/ári og vöxtur bestu klóna var rúmlega 25 m3/ha/ári. Hæstu tré í reitnum voru tæplega 15 m og þvermálið í brjósthæð upp í rúmlega 25 cm.

Á heimasíðu Skógræktarinnar segir Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, að það sem sé áhugavert við þennan reit er hversu hraður vöxturinn er og hversu miklum afurðum hann skilar á stuttum tíma, þó um sé að ræða blöndu af bæði hraðvaxta og hægvaxta klónum.

Til gamans má geta að annar grisjaranna, Hrafn Óskarsson, vann einnig að gróðursetningu trjánna fyrir 23 árum síðan. Reiturinn í Kollabæ er aðeins 0,35 ha að stærð og úr grisjuninni komu 45-50 rúmmetrar viðar sem voru nýttir til arinviðargerðar. Eftir standa 350 tré sem munu á næstu árum heldur bæta í vöxtinn sér í lagi þvermálsvöxtinn þegar þau fá meira rými.

Fyrri grein„Tvíleikur“ frumsýndur á Selfossi
Næsta greinÍbúafundir í Rangárþingi eystra