Hraðamæling úr þyrlu ekki örugg

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt um að hraðamæling úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem sýndi að mótorhjóli var ekið á allt að 235 km hraða á sé ekki lögfull sönnun fyrir slíku broti.

Í síðustu viku dæmdi Héraðsdómur 27 ára gamlan karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og svipti hann ökuréttindum í fjórtán mánuði fyrir að aka mótorhjóli á allt að 145 km hraða frá Kambabrún til Reykjavíkur í lok júlí á síðasta ári. Á leiðinni ók maðurinn framhjá bílum með því að fara út á umferðaröxl hægra megin á veginum. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og fór fram hjá nokkrum vegatálmum lögreglu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fylgdi manninum eftir og var hraði mótorhjólsins þá mældur allt að 235 km á klukkustund á hluta leiðarinnar. Einnig elti lögreglumaður á mótorhjóli manninn á 245 km hraða og jókst þá enn bilið á milli hjólanna. Maðurinn játaði að hafa ekið allt of hratt en neitaði því að hafa ekið á svo miklum hraða.

Fram kemur í dómnum að dómari, sækjandi, verjandi, lögreglumenn og aðstoðarmaður dómara fóru í vettvangsferð með þyrlunni til að kynna sér aðstæður. Segir m.a. í niðurstöðu Ragnheiðar Thorlacius, héraðsdómara, að þótt tækjabúnaðurinn, sem notaður var við hraðamælingar, sé öruggur og áreiðanlegur og starfsmenn Landhelgisgæslunnar þrautþjálfaðir fagmenn byggist hraðamæling úr þyrlu fyrst og fremst á mati flugstjóra þyrlunnar um það hvort þyrlunni sé flogið samsíða ökutæki á jörðu niðri.

Taldi dómarinn að ekki væri komin fram lögfull sönnun á að mótorhjólinu hefði verið ekið með 235 km hraða eins og mæling þyrluáhafnarinnar sýndi. Þá taldi dómarinn heldur ekki að jafnhraðamæling lögreglumannsins á mótorhjólinu væri lögformlega staðfest.

Lögregla krafðist þess að mótorhjólið, sem er af gerðinni Honda CBR, yrði gert upptækt. Því hafnaði dómarinn og sagði að ekki teldust vera uppfyllt skilyrði umferðarlaga um stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem teljist sérlega vítaverður.

Maðurinn var einnig fundinn sekur um að hafa ekið hjólinu á Miklubraut í Reykjavík á 146 km hraða í júní í fyrra. Maðurinn játaði það brot.

Fyrri greinByssumaður laus úr haldi lögreglu
Næsta greinHvítárbrúin eykur aðsókn