Hraðakstur og ölvun í Árnessýslu

Í liðinni viku voru 33 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar í Árnessýslu.

Flestir voru þeir á vegum þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst en þó voru átta ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt innan þéttbýlisstaðanna á Flúðum, í Reykholti og á Laugarvatni en á þessum stöðum er 50 km/klst hámarkshraði.

Númer voru tekin af fjórum ökutækjum vegna þess að þau reyndust ótryggð í umferðinni. Þrír voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiða sinna og átta umferðaróhöpp voru tilkynnt á tímabilinu, öll minniháttar.

Ellefu ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna við akstur bifreiða. Einn þeirra var auk þess mældur á 132 km/klst hraða og hafði hann, í félagi við vinkonu sína, tekið bifreiðina sem hann ók ófrjálsri hendi á Selfossi. Maðurinn hefur aldrei öðlast réttindi til að aka bifreið.

Annar ölvaður ók bifreið sinni afturábak á kyrrstæða bifreið í Þorlákshöfn. Ekki urðu meiðsl á fólki þar.

Fyrri greinNefhjóli og olíu stolið
Næsta greinSagaði í fingur