Hraðinn vekur ugg

Lögreglumenn á Hvolsvelli hafa síðustu daga verið við umferðareftirlit í umdæminu en á Facebook síðu lögreglunnar kemur fram að hraðatölur á þjóðvegunum fari stígandi með hverjum degi.

“Það sem vekur með okkur mikinn ugg og óþægindi er að við sjáum að hraðatölur fara stígandi með hverjum deginum. Fjórtán ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðann akstur á tólf klukkustunda tímabili í gær og voru fjórir þeirra á gríðarlegum hraða, eða frá 123 – 134 km/klst,” segir á Facebooksíðu lögreglunnar en ökumennirnir voru bæði erlendir og íslenskir.

Lögreglan á Hvolsvelli mun halda áfram hraðamælingum næstu daga og í allt sumar, með það að leiðarljósi að lækka umferðarhraða í umdæminu, sem nær frá Þjórsá austur fyrir Lómagnúp, og minnka afleiðingar umferðarslysa og um leið fækka þeim.

Fyrri greinGanga á Búrfell í kvöld
Næsta greinOpna Domnios mótið á sunnudaginn