Hraðakstur um hávetur

Lögreglan á Selfossi kærði þrjá ökumenn fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Hraðinn var í meira lagi, frá 123 upp í 141 km/klst.

Átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í síðustu viku en engin alvarleg slys hlutust af. Í flestum tilvikum höfðu ökumenn ekki áttað sig á hálku sem hefur verið mjög lúmsk á vegum nú undanfarið og ástæða fyrir ökumenn að hafa allan vara á.

Einn var handtekinn fyrir ölvunarakstur en sá hafði misst stjórn á bifreið sinni í Þóristúni og strandaði á steinkanti. Maðurinn var mjög ölvaður.

Húsleit var gerð í íbúðarhúsi á Stokkseyri í síðustu viku í tengslum við rannsókn á úlpuþjófnaði í FSu á Selfossi. Við leitina fanns tóbaksblandað hass. Húsráðandi gekkst við að eiga efnið og notað til eigin neyslu.

Fyrri greinSóðalegur bruggari gaf hundinum gambra
Næsta greinTveir traktorar brunnu