Hraðahindrunum hent í Ytri-Rangá

Hlutar úr hraðahindrunum sem stolið var á Hellu um helgina fundust strax í Ytri-Rangá. Tjón sveitarfélagsins vegna skemmdarverkanna hleypur á hundruðum þúsunda króna.

Eins og sunnlenska.is greindi frá voru unnin skemmdarverk á hraðahindrunum og eftirlitsmyndavél stolið á Hellu aðfararnótt sl. sunnudags. Átta einingar voru fjarlægðar úr hraðahindrunum við Þrúðvang og Freyvang og fannst helmingur þeirra daginn eftir í Ytri-Rangá.

Íbúar á Hellu hafa í langan tíma kvartað yfir hraðakstri á götum bæjarins og brást sveitarfélagið við með því að setja niður hraðahindranir úr einingum á hættulegustu staðina. Tjón sveitarfélagsins vegna skemmdarverkanna um helgina hleypur á hundruðum þúsunda króna.

Sveitarstjórn lítur málið mjög alvarlegum augum og hefur það verið kært til lögreglunnar. Íbúar á Hellu og aðrir sem telja sig hafa upplýsingar sem upplýst geta málið eru beðnir um að snúa sér til lögreglunnar á Hvolsvelli.