Hræringar í Heklu

Mælitæki í kringum Heklu hafa undanfarna daga sýnt þar sem jarðvísindamenn kalla óvenjulegar hreyfingar í fjallinu. Almannavörnum hefur verið gert viðvart.

Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.Ekki þykir þó ástæða enn sem komið er til að grípa til aðgerða.

Þessar hreyfingar hafa komið fram á fimm nákvæmum staðsetningarmælum sem settir hafa verið í kringum Heklu undanfarin misseri. Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði segir að þessar hreyfingar hafi komið fram á öllum mælunum, og þótt þær gefi ekki óyggjandi vísbendingar, er talið að þær endurspegli kvikuhreyfingar undir Heklu.

Rúm ellefu ár eru síðan Hekla gaus síðast og fjallið hefur hægt og bítandi verið að bólgna út síðustu árin; undir því hefur kvika verið að safnast fyrir.

Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra var í gær gert viðvart um þessa þróun mála, og almannavarnarnefndir á Suðurlandi voru látnar vita. Að svo komnu máli þykir hins vegar ekki ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða.

Grannt er hins vegar fylgst með Heklu, enda hafa gos þar yfirleitt gert lítil boð á undan sér. Þegar það síðasta hófst, 26 febrúar árið 2000, byrjaði skjálftahrina tæpum einum og hálfum tíma áður en áður en kvikan braust upp á yfirborðið.

Fyrri greinToppliðið vann botnliðið
Næsta greinHaraldur með þrennu fyrir Hamar