Hótelstjórinn þakkar fyrir sig

Í liðinni viku færði Karl Rafnsson, hótelstjóri á Hótel Klaustri, Slökkviliði Kirkjubæjarklausturs og Kvenfélagi Kirkjubæjarhrepps þakklætisvott fyrir aðstoð þegar eldur kom upp á hótelinu á dögunum.

Atvikið átti sér stað þann 6. nóvember sl. en eldurinn kom upp í frauðplastkössum við eldhús hótelsins. Reykur barst upp á efri hæðina og inn á herbergisgang. Starfsmaður hótelsins brást skjótt við og slökkti eldinn svo að slökkviliðsmenn þurftu aðeins að reykræsta. Kvenfélagskonur mættu svo að eigin frumkvæði með tuskurnar og létu hendur standa fram úr ermum við þrif.

Mikið mildi var að ekki fór verr en raunin varð og að sögn Karls hótelstjóra er hreint ómetanlegt að finna hve gott er að búa í litlu samfélagi þegar slíkt óhapp kemur upp.