Hótel Selfoss rýmt vegna elds

Eldur kom upp í stórum tauþurrkara í kjallara Hótel Selfoss laust fyrir klukkan tvö í nótt. Um 130 hótelgestir þurftu að rýma herbergi sín.

Slökkviliðið á Selfossi fékk tilkynningu um eldinn kl. 1:51 í nótt. Reykkafarar fóru á vettvang og samkvæmt lýsingu þeirra hafði verið mikill eldur í þvottahúsi hótelsins og þykkur reykur var í kjallaranum. Sjálfvirkt úðarakerfi hafði hins vegar slökkt eldinn og því þurftu slökkviliðsmenn einungis að reykræsta kjallarann.

Að sögn lögreglu gekk vel að rýma hótelið og gestir voru flestir mjög rólegir. Um 130 gestir eru á hótelinu og yfirgáfu þeir herbergi sín þegar eldvarnarkerfi fór í gang. Lögreglumenn gengu síðan á öll herbergi til að athuga hvort einhverjir gestir væru eftir inni.

Fjöldahjálparstöð Rauða krossins var virkjuð og var hótelgestunum komið fyrir í bílum frá viðbragðsaðilum. Fólkið verður síðan flutt í hús Rauða krossins á Selfossi en ekki er útséð um hvenær gestir fá að snúa aftur til hótelherbergja sinna.

Gistiálma hótelsins er á þremur hæðum en lítill reykur barst inn á hana. Töluverðar skemmdir eru í kjallaranum vegna reyks og vatns.

eldur220611gk2_930958856.jpg

eldur220611gk4_572844084.jpg

eldur220611gk3_306863814.jpg

eldur220611gk5_449502607.jpg