Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt fyrir Hótel Rangá með fjölmörgum alþjóðlegum viðurkenningum. Hótelið hlaut Michelin-lykil, Good Housekeeping Award og er jafnframt meðal 10 bestu hótela í Norður-Evrópu samkvæmt Condé Nast Traveler Readers’ Choice Awards 2025, ein virtasta viðurkenning í ferðamennsku á heimsvísu.
Hótel Rangá, við Eystri-Rangá á Rangárvöllum, er þekkt fyrir hlýlegt andrúmsloft, framúrskarandi matargerð og frábært stjörnuskoðunarhús.
Árleg könnun Condé Nast Traveler byggir á reynslu og mati lesenda, sem velja sín uppáhaldshótel, áfangastaði og ferðaupplifanir um allan heim. Viðurkenningin endurspeglar mikla ánægju gesta með þjónustu, gæði og einstaka upplifun Hótels Rangár.
Michelin-lykillinn er ný viðurkenning frá Michelin fyrir hótel og gististaði sem standast strangar gæðakröfur. Gististaðir sem hljóta lykil eru einstakir, bjóða framúrskarandi þjónustu og óvenjulegar eða sjaldgæfar upplifanir.

Good Housekeeping Award er veitt af Good Housekeeping Institute, einni þekktustu neytendastofnun heims. Viðurkenningin byggir á prófunum sérfræðinga sem staðfesta að þjónusta og upplifun standist háar alþjóðlegar gæðakröfur.

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þessar mikilvægu viðurkenningar,“ segir Friðrik Pálsson, eigandi Hótels Rangár. „Þær eru fyrst og fremst að þakka frábæru og metnaðarfullu starfsfólki sem flest hefur verið hjá okkur til margra ára. Við leggjum mikla áherslu á góða þjónustu, hlýtt andrúmsloft og hjálpsemi – að hver og einn gestur upplifi að hann skipti máli og sé velkominn. Það er einstaklega gefandi að sjá að þessi vinna skilar sér í minnistæðri upplifun fyrir gesti okkar.“


