Hótel Örk verðlaunað þriðja árið í röð

Hótel Örk í Hveragerði hlaut á dögunum alþjóðlega viðurkenningu frá World Golf Awards og stóð uppi sem sigurvegari í flokknum „besta golfhótel Íslands“ árið 2016.

Þetta er þriðja árið í röð sem Hótel Örk fær þessa viðurkenningu. Hótel Örk var einnig tilnefnt til verðlauna í flokknum „Besta golfhótel Evrópu“.

Ferlið er þannig að fyrst eru golfvellir og fyrirtæki valin í hverjum flokki, því næst kjósa fagmenn úr golfiðnaðinum, ferðaskrifstofur, blaðamenn og einstaklingar með mikla þekkingu á golfíþróttinni á vefsíðu félagsins.

Verðlaunin eru hluti af World Travel Adwards og fór sjálf keppnin fram á hinu glæsilega hótel Conrad Algarve í Portúgal í nóvember. Veitt voru verðlaun í golf-ferðaþjónustu og þar má helst nefna Osprey Point Golf Course, sem fékk alþjóðleg verðlaun fyrir umhverfisvænasta golfvöll ársins ásamt Richard Tessel sem fékk heiðursverðlaunin sem golf-persóna ársins.

„Við hjá Hótel Örk erum afar stolt af þessum verðlaunum og teljum við að golf-ferðaþjónustan sé mikilvægur hluti af ferðaþjónustumarkaðnum. Þetta er afar hvetjandi fyrir okkur að fá verðlaun sem þessi sem vekja athygli á hótelinu og landshlutanum í heild,“ segir í fréttatilkynningu frá Hótel Örk.

Fyrri greinSelfoss fékk Hauka og Gróttu
Næsta greinHefðbundin þrettándagleði á Selfossi