Hótel Anna er bær mánaðarins

Bær októbermánaðar hjá Ferðaþjónustu bænda er Hótel Anna á Moldnúpi undir Eyjafjöllum.

Hótel Anna er lítið, notalegt og vandað sveitahótel í rómantískum stíl sem leggur áherslu á persónulega þjónustu. Hótelið er staðsett nálægt mörgum af helstu náttúruperlum Suðurlands. Gisting er í sjö tveggja manna herbergjum með baði, sjónvarpi og þráðlausu interneti.

Samkvæmt viðskiptavinum og starfsfólki Ferðaþjónustu bænda er þjónustan á Hótel Önnu til fyrirmyndar. Gestgjafarnir og fjölskyldan þau Eyja Þóra Einarsdóttir, Jóhann Frímannsson og Einar Jóhannsson leggja sig fram við að skapa þægilegt umhverfi fyrir gesti sína og hafa vandað mjög til við að endurskapa andrúmsloft fyrri tíma og miðla sögu staðarins. Þess má geta að hótelið fagnar tíu ára afmæli í ár en bærinn hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í tugi ára.

Á Hótel Önnu er virk umhverfisstefna. Lögð er áhersla á að nýta vel það sem fyrir er, sem sjá má meðal annars í upprunalegu húsnæðinu, antíkhúsgögnunum – og skreytingunum. Starfsfólkið reynir einnig að endurvinna sem mest, spara vatn og rafmagn og nýta sem mest af hráefni úr nærumhverfinu. Þá eru gestir hvattir til þess að taka virkan þátt í umhverfisstefnunni með starfsfólki hótelsins.

Bær mánaðarins

Fyrri greinSjö Fossbúar fengu Forsetamerkið
Næsta greinÞórsurum spáð fjórða sæti