Hótel á Hellu rís hratt

Vel gengur að reisa nýtt hótel félagsins Stracta á Hellu á Rangárvöllum. Að sögn Hreiðars Hermannssonar forsvarsmanns félagsins er ætlað að opna megi hótelið fyrir gestum um miðjan maí.

Þar verða alls 124 gistirými, herbergi, parhús og svítur, eða alls um 265 rúm.

„Þetta gengur allt samkvæmt áætlun, og hér er unnið á ýmsum byggingarstigum,“ sagði Hreiðar í samtali við blaðið. Um fimmtíu manns eru að störfum við bygginguna þessa dagana.

Sérstök aðkoma verður að hótelinu af Suðurlandsveginum. Í þjónustubyggingunni verður innritun, en einnig bar og veitingasalur á neðri hæðinni og um 320 manna veislusalur og veislueldhús á efri hæð, ásamt því að þar verður útgengt á svalir, að sögn Hreiðars. Þess má svo geta að þrátt fyrir að hótelið haf enn ekki opnað hefur það fengið umfjöllun í breska blaðinu Independent sem spennandi valkostur nýrra hótela í heiminum á þessu ári.

Næst byggt í Skaftárhreppnum
Fyrirtæki Hreiðars hyggur einnig á byggingu hótels í Skaftárhreppnum, á jörðinni Orrustustöðum í Fljótshverfinu austan Klausturs. Þar verður lagður vegur að um fimmtán hektara svæði úr jörðinni, þar sem hótel, í líkingu við það sem nú rís á Hellu, á að vera.

„Ætlunin er þó að það verði einungis á einni hæð, til að falla betur inn í náttúruna,“ segir Hreiðar, sem eignast hefur jörðina, sem alls telur um 3.000 hektara að sögn Hreiðars. Skipulagsmálin eru á lokametrunum hjá sveitarfélaginu.

Fyrri greinMamma veit best
Næsta greinEllefu Selfyssingar í úrvalshópum FSÍ