Hornsteinn lagður að Búrfellsstöð II og stöðin gangsett

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði hornstein að Búrfellsstöð II, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, gangsetti hana við hátíðlega athöfn í dag.

Búrfellsstöð II er átjánda aflstöð Landsvirkjunar. Hún er í Sámsstaðaklifi, á milli Búrfells og Sámsstaðamúla, og við hönnun hennar var leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdanna. Stöðvarhúsið er neðanjarðar og nýtir stöðin inntakslón og önnur veitumannvirki Búrfellsstöðvar.

Auk forseta og fjármála- og efnahagsráðherra héldu ávörp á athöfninni Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður, Hörður Arnarson forstjóri, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Gunnar Guðni Tómasson framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs og Ásbjörg Kristinsdóttir yfirverkefnisstjóri framkvæmdarinnar.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að með stöðinni, sem er 100 MW, aukist orkugeta raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Kemur það til bæði vegna þess að rennslið er nýtt betur, auk þess sem falltap verður minna þegar álag af Búrfellsstöð yfir á Búrfellsstöð II. Uppsett afl nýrrar stöðvar er 100 MW með einni vél en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW.

Framkvæmdir við verkefnið hófust í apríl 2016. Stöðin er staðsett neðanjarðar í Sámsstaðaklifi, en vatn er tekið úr inntakslóni Búrfellsstöðvar (Bjarnalóni). Lónið og veitumannvirki voru þegar til staðar. Úr inntakslóni er 370 metra langur aðrennslisskurður sem liggur fram undir brún Sámsstaðaklifs að inntaki stöðvar. Þaðan fellur vatnið niður um 110 metra löng fallgöng að stöðvarhúsi og þaðan er vatninu síðan veitt út í frárennslisskurð sem leiðir það út í Fossá.

Fjölmargir starfsmenn af ýmsum þjóðernum
Fjölmargir starfsmenn komu að framkvæmdum við Búrfellsstöð II á árunum 2016-2018. Þegar mest var voru yfir 240 starfsmenn á verkstað af um 20 þjóðernum. Þar af voru Íslendingar um og yfir 40% allan framkvæmdatímann. Af öðrum þjóðernum má nefna Litháa, Portúgali, Pólverja, Slóvaka, Austurríkismenn og Þjóðverja. Fjölmennasti hópur starfsmanna á verkstað var á vegum byggingarverktaka ÍAV Marti. Einnig voru þar hópar erlendra starfsmanna á vegum vél- og rafbúnaðarframleiðandans Andritz Hydro, stálframleiðandans DSD Noell, spennaframleiðandans Efacec og strengjaframleiðandans LS Cable.

Fyrri greinDusan hættur með Hamar
Næsta greinSigurður og Birta taka við rekstri Menam