Hornsteinn hyggur á uppbyggingu í Ölfusi

Þorlákshöfn. Ljósmynd / Chris Lund

Fyrr í dag undirrituðu Sveitarfélagið Ölfusog og Hornsteinn hf., móðurfyrirtæki BM Vallár, Björgunar og Sementsverktsmiðjunnar, viljayfirlýsingu sem felur í sér uppbyggingu á umfangsmikilli starfsemi Hornsteins í Þorlákshöfn.

Um er að ræða útflutningsverkefni tengd auðlindanýtingu jarðefna. Ef af því verður getur það orðið undirstaða útflutnings á 0,5 til 1 milljón tonnum af unnu efni. Slík umsvif myndu skapa tugi starfa í sveitarfélaginu auk umsvifa við höfnina. Framleiðsla gæti hafist strax á næsta ári en áætlað er að niðurstaða um umfang framleiðslu liggi fyrir um mitt næsta ár. Samhliða þessu hefur Horsteinn hug á að kanna möguleika á frekari starfsemi í sveitarfélaginu í takt við þá framleiðslustarfsemi sem félagið starfrækir fyrir innanlandsmarkað.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að efnahagsleg áhrif COVID-19 hafi lagt ríka ábyrgð á hið opinbera er lítur að nýrri verðmætasköpun.

„Nú þegar atvinnuleysi er í sögulegu hámarki er ljóst að við verðum fyrst og fremst að framleiða okkur út úr kreppunni. Þetta verkefni er sannarlega skref í þá átt,“ segir Elliði og bætir við að hjá Sveitarfélaginu Ölfusi haf verið unnið markvisst að kortlagningu tækifæra og þá ekki síst þeirra sem snúa að auðlindanýtingu og vexti hafnarinnar.

„Sú sókn hefur að stórum hluta verið leidd af Þekkingarsetrinu Ölfus Cluster. Undir þess hatti koma fyrirtæki hér í Ölfusi saman að nýtingu tækifæra, grænum lausnum og tilurð hringrásarhagkerfis.  Áherslur Horsteins og dótturfyrirtækja þess falla afar vel að okkar framtíðarsýn og við fögnum því að fá þá til liðs við okkur. Við munum í framhaldi af þessu einhenta okkur í samvinnu við Hornstein um framgang þessa metnaðarfulla verkefnis.  Þar undir fellur ma. skipulagsvinna, úttekt á frekari uppbyggingu á forsendu hringrásarhakerfis, kortlagning heppilegra svæða til auðlindanýtingar og fleira.  Það er sóknarhugur í samfélaginu hér,“ segir Elliði ennfremur.

Fyrri grein56 í einangrun á Suðurlandi – Flestir í Árborg
Næsta greinML lýkur önninni í fjarnámi