Hornafjörður segir upp samningi um rekstur hjúkrunarheimilis

Hjúkrunarheimilið Skjólgarður á Höfn. Ljósmynd/HSU

Bæjarráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar lagði á fundi sínum þann 9. júní til að samningum við Sjúkratryggingar Íslands vegna rekstur hjúkrunarheimilis á Höfn verði sagt upp.

Sveitarfélagið hefur um árabil rekið alla heilbrigðisþjónustu samkvæmt þjónustusamningum við Heilbrigðisráðuneytið eða Sjúkratryggingar Íslands. Um áramótin síðustu færðist rekstur heilsugæslu, sjúkrarýma og sjúkraflutninga til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi að ósk ríkisins, sveitarfélagið hafði allan hug á að reka stofnunina áfram en ekki náðust samningar um það.

Á fundi bæjarstjórnar 11. júní var samþykkt að segja upp samningnum upp en jafnframt að óska eftir viðræðum við heilbrigðisráðherra um hvernig ríkið geti staðið betur að fjármögnun þannig að áframhald geti orðið á rekstri sveitarfélagsins á þjónustunni.

Stefnir í 100 milljón króna halla
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að rekstur hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs hafi þyngst verulega undanfarin ár. Fyrstu drög ársreiknings sýna fram á að eigið fé stofnunarinnar í árslok var neikvætt um 36,7 milljónir króna. Þá eru ótaldar lífeyrisskuldbindingar sem munu að öllum líkindum falla á stofnunina að upphæð 34 milljónir króna. Rekstrarvandi þessa árs er mikill og markþættur, yfirfærsla heilsugæslu, sjúkraflutninga og sjúkrarýma til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur þar áhrif. Bendir allt til þess að uppsafnaður rekstrarhalli í lok árs verði um og yfir 100 milljónir króna.

„Bæjarstjórn getur ekki unað við að rekstrarvandi hjúkrunarheimilisins lendi á sveitarfélaginu enda er rekstur hjúkrunarheimila á ábyrgði ríkisins samkvæmt lögum. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur rekið þennan málaflokk af myndugleika um langt skeið og hefur mikinn áhuga á að halda því verkefni áfram en sér sér engan veginn fært miðað við þær rekstrarforsendur sem núverandi fjárframlög frá ríkinu bjóða uppá,“ segir í bókun bæjarstjórnar sem mun með trega segja upp rammasamningi milli SÍ og sveitarfélagsins frá og með 7. júlí næstkomandi og óska eftir viðræðum við heilbrigðisráðherra um hvernig ríkið geti staðið betur að fjármögnun þannig að áframhald geti orðið á rekstri sveitarfélagsins á þjónustunni.

Fyrri greinGleðistundir hefjast að Kvoslæk
Næsta greinMikil velta á fasteignamarkaði