Horfir til vandræða vegna sandfoks við Kambinn

Í gær var efnt til fundar í Þorlákshöfn um Kambinn, sem er hár sjávarkambur milli Óseyrarbrúar og Þorlákshafnar. Skörð í Kambinum valda því að sandfok á Óseyrartanga hefur aukist.

Í hálfa öld hafa milljónir rúmmetra af sandi fokið upp úr fjörunni og bundist í melgrasinu við ströndina með þeirri afleiðingu að Kamburinn hefur hækkað um tugi metra. Þessi kambur er einstök náttúrusmíð hér á landi og þó víðar væri leitað.

Á liðnum árum hafa myndast skörð í Kambinn og sandurinn á greiða leið í gegnum þau. Vindstyrkur í þessum skörðum er oft gríðarlega mikill og ef svo fer sem horfir munu skörðin stækka og þar með eykst sandfok á þjóðveginum. Þetta mun einnig valda vandamálum vegna raflínu sem er á Kambinum auk þess sem aukinn sandburður frá ströndinni mun valda miklum vanda á golfvellinum sem er í næsta nágrenni.

Melgrasið á erfitt með að skjóta rótum efst í Kambinum og hamla því að sandurinn berist ekki inn á landið – og nóg er af honum á ströndinni.

Fundinn í gær sátu fulltrúar Landgræðslunnar, Vegagerðarinnar og landeigenda auk starfsmanna sveitarfélagsins Ölfuss og fulltrúa úr bæjarstjórn og bæjarráði.

Þar var rætt um hvaða leiðir eru færar til að koma í veg fyrir að sandurinn geri þann óskunda sem að framan er lýst. Ákveðið var að stofna samráðshóp hlutaðeigandi aðila til að vinna í málinu.

Í framsögu Sveins Runólfssonar, landgræðslustjóra, kom fram það mat að hagsmunaaðilar þyrftu að gera með sér formlegt samkomulag og semja áætlun um þau verk sem þarf að vinna næstu árin. Landgræðslustjóri sagði að verkaskipting þyrfti að vera skýr og forræði Kambsins í föstum skorðum svo unnt væri að friða hann fyrir umferð vélknúinna tækja og hestaumferð utan afmarkaðra slóða.

Fyrri grein„Rosalega mikilvægur sigur“
Næsta greinHSK-ganga á Vatnsdalsfjall í næstu viku