Hörð mótmæli vegna verðhækkunar Rarik

Hreppsnefnd Hrunamannahrepps mótmælir nýtilkomnum verðhækkunum Rarik harðlega og telur þær vera grófa mismunun gagnvart landsbyggðinni.

Hreppsnefndin bendir á að hækkunin, sem nemur 7,5% í dreifbýli og 5% í þéttbýli fyrir dreifingu og flutning raforku, sé umfram verðbólgu hvað varðar landsbyggðina. Fyrir var umtalsverður munur á gjaldi í dreifbýli og þéttbýli. Þetta sé gert þrátt fyrir að raforkan sé að megninu til framleidd á landsbyggðinni.

Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður viðskiptadeildar Rarik, segir hækkunina tilkomna vegna þess að ríkið hafi ekki staðið við samninga um svokallað dreifbýlisframlag sem á að jafna muninn á kostnaði við raforkudreifingu á milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Sjá má í ársreikningi Rarik 2010 að þegar raforkulög tóku gildi árið 2005 nam framlagið 230 milljónum króna. Á síðasta ári var framlagið 245 milljónir sem Rarik segir einungis vera fjórðung af því sem þyrfti til að verðjafna á milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Á heimasíðu Rarik kemur fram að búast megi við frekari hækkunum í dreifbýli á næstu árum, nema ríkið hækki dreifbýlisframlagið.

Fyrri greinBílar fastir í Þrengslum og á Sandskeiði
Næsta greinSelfoss vann gull og brons á Reykjavíkurleikunum