Hörð andstaða við lokun heilsugæslu

Ákvörðun um að loka heilsugæslunni á Hellu í þrjá mánuði í sumar mætir harðri andstöðu í sveitarfélaginu og krefst sveitarstjórn þess að ef gripið verður til lokunar verði henni dreift jafnt á milli Hellu og Hvolsvallar til að gæta jafnræðis milli íbúa sýslunnar.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hyggst leita til Landlæknis og velferðarráðuneytisins til að fá þessari ákvörðun hnekkt.

Vísar sveitarstjórn meðal annars til reglugerðar um heilsugæslustöðvar sem fjallar um jafnan rétt sjúklinga til að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.

Hefur sveitarstjórn Rangárþings ytra lýst áhyggjum sínum vegna skerðingar á læknaþjónustu í Rangárvallasýslu en almenn vaktþjónusta lækna var felld niður 1. febrúar sl. og er nú einungis veitt neyðarþjónusta á svæðinu á tilteknum tímum.

Í bókun á síðasta sveitarstjórnarfundi kemur fram að með breytingunum aukast vegalengdir og kostnaður til muna fyrir einstaklinga og þar með eykst hætta á að íbúar veigri sér við að leita aðstoðar í veikindum sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Fyrri greinStöðvaði ekki við gangbraut og fékk sekt
Næsta greinBærinn þarf að breyta fjármögnun