Hópur fólks hyggst hreinsa strandlengjuna

Tómas J. Knútsson og Blái herinn stendur fyrir hreinsun strandlengjunnar í Selvogi á morgun, miðvikudag. Þetta gerir Tómas í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi, sem styrkt hefur verkefnið um nokkuð skeið.

Tómas sagði í samtali við Sunnlenska að hann aki gjarnan um Selvoginn á leið sinni á Suðurlandið. Eitt kvöldið hafi hann rambað á fríholt í grennd við Hlíðarvatn. Hafi hann ákveðið að reifa málið og hugmyndir sínar við bændur á svæðinu.

„Maður verður alltaf að hafa samþykki jarðeigenda,“ sagði Tómas í stuttu spjalli við Sunnlenska. Hann lét bakhjarla sína í sendiráði Bandaríkjanna vita, sem tóku vel í hugmyndina og hyggast virkja starfsfólk annarra sendiráða í tiltektina.

„Bandaríska sendiráðið hefur sýnt þessu mikinn áhuga og styrkt á ýmsan hátt, svo sem með að senda á mig áhöfn af herskipi til verksins eða slíkt,“ segir Tómas. Þeir sendiráðsmenn vildu gera enn meira núna og nú er stefnan á að fá um eitthundrað manns í hreinsunina, af ýmsu þjóðerni. „Við stefnum að því að ná 100 manns,“ bætir Tómas við.

En hverskonar rusl er Tómas að finna í fjöru? „Það er að megninu tengt sjávarútvegi, tengt því umhverfi sem við erum að þrífa í hvert og eitt sinn,“ segir hann. Þannigsé hægt að finna olíubrúsa, leifar af veiðarfærum, eða dósir við árósa og baggaplast í grennd við landbúnaðarsvæði.

Tómas heldur vel utan um tölur og aðrar uppýsingar um ruslið sem tínt er og er það í heildina komið upp í um 1.300 tonn frá því hann hóf að hreinsa strandlengjuna árið 1995.