Hópsmit í Mýrdalshreppi

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Fimm af sex kórónuveirusmitum sem greindust utan sóttkvíar í gær má rekja til hópsmits í Mýrdalshreppi. Þar eru nú sex manns í einangrun og einn í sóttkví.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sagði í hádegisfréttum RÚV að líklega tengist hópsmitið landamærasmiti. Grunur sé um að einstaklingur sem framvísaði vottorði um mótefni á landamærum hafi smitast aftur af veirunni eftir komuna til landsins.

„Þessi sem við teljum að gæti verið uppruni smitsins, er einstaklingur sem var með vottorð erlendis frá um fyrri sýkingu. Og er reyndar með mótefni líka en greinist með veiruna. Þannig að spurningin er hvort hér sé um nýtt smit hjá einstaklingi sem hefur áður smitast eða ekki. Við getum ekki alveg svarað því eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í fréttum RÚV.

Nú eru fjórtán manns í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19, fyrrnefndir sex í Mýrdalshreppi og átta á Selfossi. Fimm eru í sóttkví á Suðurlandi og 66 í skimunarsóttkví eftir skimun á landamærunum.

Alls greindust 11 smit innanlands í gær og voru 6 þeirra utan sóttkvíar.

Fyrri greinÖkumenn tóku við sér í síðustu viku
Næsta greinMerkileg kvikmynd frá Laugarvatni