Hönnunarhópurinn vill stærri Hamarshöll

Gamla Hamarshöllin sem fauk í febrúar. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Hönnunarhópur nýrrar Hamarshallar í Hveragerði hefur skilað af sér tillögu um framtíðaruppbyggingu Hamarshallarinnar.

Á bæjarstjórnarfundi í júlí ákvað bæjarstjórn Hveragerðisbæjar að fara af stað með hönnun og alútboð á nýrri Hamarshöll í stað þeirrar sem fauk þann 22. febrúar síðastliðinn. Ákveðið var að ný höll verði fulleinangrað stálgrindarhús eða sambærilegt.

Hönnunarhópurinn skilaði tillögu sinni í gær og óskar hópurinn eftir því að ný Hamarshöll rúmi knattspyrnuvöll, fjölnota íþróttagólf og púttvöll í sömu stærð og núverandi vellir, en auk þess ca. 650 fermetra fimleikaaðstöðu, búningsaðstöðu með sturtum og áhorfendastúkur fyrir 400-600 manns, auk veglegs anddyris, skrifstofurýmis, lyftingaaðstöðu, starfsmannaaðstöðu, tæknirýmis, geymslu og salerna.

Hópurinn leggur til að húsinu verði skipt upp í stórspennta einfalda íþróttahöll með þjónustuhúsi sem tryggir góða tengingu við framtíðar útiíþróttasvæði norðan við höllina. Hægt verði að bjóða verkið út í tveimur áföngum en húsið verði frekar einfalt og hagkvæmt í byggingu og hægt verði að nýta það til stærri viðburða, svosem tónleika.

Skýrsla hönnunarhópsins verður lögð fyrir næsta bæjarráðsfund en hópurinn leggur til að bærinn fái ráðgjafa, arkitekt og verkfræðing að verkinu til að vinna nánari þarfagreiningu og útbúa alútboðsgögn í samráði við bæjaryfirvöld.

Fyrri greinSannkölluð söngveisla í Bókakaffinu
Næsta greinFjallahjólaveisla í Hveradölum