Hólmsárvirkjun komin í matsferli

Landsvirkjun og Orkusalan ehf. áforma að reisa allt að 80 Mw vatnsaflsvirkjun í Hólmsá í Skaftárhreppi. Gert er ráð fyrir stíflu við Atley, skammt austan Mýrdalsjökuls.

Tæplega tíu ferkílómetra uppistöðulón verður fyrir ofan stífluna, svokallað Atleyjarlón. Úr lóninu verður vatni veitt um 6,5 km löng aðrennslisgöng í suðaustur að stöðvarhúsi neðanjarðar og síðan taka við um 1,1 km löng frárennslisgöng og að lokum skilar 0,9 km langur skurður vatninu út í Flögulón.

Lögð hafa verið fram drög að tillögu að matsáætlun vegna virkjunarinnar. Áformað er að tillaga að matsáætlun liggi fyrir nú í maí og stefnt er að því að frummatsskýrsla verði tilbúin ári síðar.

Í sumar verða gerðar rannsóknir á náttúrufari, menningarminjum og samfélagsáhrifum. Formlegt kynningarferli frummatsskýrslu fer fram á fyrri hluta næsta árs. Ef áætlanir standast mun matsferli ljúka í ársbyrjun 2013.